Hinn þýski banki DekaBank hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu vegna neyðarlaganna og annarra aðgerða stjórnvalda í tengslum við bankahrunið. Þetta staðfesti talsmaður þýska bankans við Viðskiptablaðið í dag.

Málið hefur verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í skriflegu svari talsmanns bankans, við fyrirspurn blaðamanns Viðskiptablaðsins, segir að bankinn hafi lánað íslenskum bönkum en hann sjái nú fram á að tapa þeim fjármunum vegna þess að stjórnvöld hafi ákveðið að gera innstæður að forgangskröfum.

Bankinn gerir einnig athugasemdir við uppskipti bankanna í gamla og nýja.

Þá segir talsmaðurinn að eftirliti, íslenskra stjórnvalda og eftirlitsaðila, með bönkunum hafi verið ábótavant og þar með hafi þessir aðilar borið sína ábyrgð.

Umræddar aðgerðir stjórnvalda hafi hvorki verið réttlátar né sanngjarnar og að þær hafi enn fremur brotið gegn eignarétti bankans samkvæmt ákvæðum íslenskrar stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Fer bankinn fram á skaðabætur.

Nánar er fjallað um óánægju þýsku bankanna í Viðskiptablaðinu í dag.