Aðalmeðferð í máli þýska bankans Dekabank gegn þrotabúi Glitnis hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Bankarnir áttu í endurhverfum viðskiptum fyrir hrun sem fólust í því að Glitnir fjármagnaði sig m.a. með sölu á skuldabréfum Kaupþings og Landsbankans til Dekabank.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag af aðalmeðferðinni segir að fulltrúar Dekabank telji fjölmörg mistök hafa verið gerð í aðdraganda bankahrunsins, sérstaklega af hálfu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Þá telji þeir að eftir hrunið skorti m.a. upplýsingagjöf  og samstarfsvilja af hálfu stjórnvalda á því að finna sameiginlega lausn á málum kröfuhafa bankanna.

Bankinn þýski hafi af þessum sökum ákveðið að höfða mál gegn Glitni og krafið íslenska ríkið um bætur upp á 338 milljónir evra, jafnvirði 55 milljarða króna vegna aðgerðaleysis fyrir hrun.