Samkvæmt nýbirtri skýrslu Evrópuráðsins eru hagvaxtahorfur nokkru dekkri á næsta ári en gert hafði verið ráð fyrir, spáð er 2,1% hagvexti á næsta ári miðað við 2.3% sem fyrri spá hafði gert ráð fyrir. Órói á olíumörkuðum sem og minni eftirspurn eftir varningi og þjónustu evrulandanna eru taldir helstu dragbítar á getu efnahagslífins til að stækka á næstu misserum. Jafnframt hefur vöxtur einkaneyslu verið hægur sem rekja má til þess kulda sem ríkt hefur á vinnumarkaði að undanförnu, en atvinnuleysi er í kringum 9% á evrusvæðinu um þessar mundir. Í ljósi þessa virðist útlit vera fyrir óbreyttum eða lækkandi stýrivöxtum á evrusvæðinu á næstu misserum, en fyrr í vikunni hélt Evrópski Seðlabankinn stýrivöxtum óbreyttum í 2%.

Í Hálffimmfréttum KB banka kemur fram að á nýliðnum misserum hefur skuldsetning hérlendis í erlendri mynt aukist mikið og vegur evran þar þyngst. Ef svo fer sem horfir þá er ljóst að afborganir evrulána munu ekki hækka sem leiðir af sér minna útflæði gjaldeyris og dregur þ.a.l. úr kerfisbundnum veikingarþrýstingi sem viðskiptahallinn setur á gengi krónunnar.