Vinnumarkaðsrannsóknir Hagstofu gefa nokkuð aðra og dekkri mynd af þróun vinnumarkaðar hér á landi en lesa hefur mátt úr tölum Vinnumálastofnunar undanfarið. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi 7,8% á fyrsta ársfjórðungi 2011 en mældist 8,6% hjá Vinnumálastofnun. Munurinn er eðlilegur, þar sem fyrrnefnda Hagstofan notar aðra skilgreiningu á atvinnuleysi. Vinnumálastofnun notast við skráða atvinnuleysisdaga.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka, sem fjallar um málið í dag. Segir að samkvæmt gögnum Hagstofunnar sé atvinnuleysi hinsvegar að aukast. „Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra mældist atvinnuleysi 7,6% í vinnumarkaðsrannsókn stofnunarinnar, og er síðasti ársfjórðungur þar með þriðji fjórðungurinn í röð þar sem aukning mælist milli ára í hlutfalli atvinnulausra. Er það gagnstætt þeirri þróun sem birst hefur í tölum Vinnumálastofnunar, en þær sýna að skráð atvinnuleysi hefur verið öllu minna undanfarið en raunin var ári áður. Þannig mældist skráð atvinnuleysi að meðaltali um 9,2% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, eða um 0,6 prósentustigum meira en það var á sama tíma í ár,“ segir í Morgunkorni.

Umfjöllun Greiningar:

Munur eftir kynjum, aldri og búsetu

Athygli vekur einnig hversu mikill munur er á atvinnuleysi milli kynja. Samkvæmt Hagstofutölunum voru 9,9% karla atvinnulausir á fyrstu mánuðum ársins á sama tíma og atvinnuleysi á meðal kvenna var 5,5%. Sennilega má þetta að hluta rekja til þess að kreppan  hefur komið mun harðar niður á störfum karla en kvenna og er hér nærtækast að nefna störf í byggingariðnaði sem hefur orðið hart fyrir barðinu í kreppunni. Eins og búast mátti við er atvinnuleysishlutfallið hæst meðal þeirra yngstu á vinnumarkaði. Þannig voru 15,9% fólks á aldrinum 16-24 ára atvinnulaus en 6,2% fólks á aldrinum 24-54 ára. Atvinnuleysi var einnig umtalsvert meira á höfuðborgarsvæðinu (8,5%) en á landsbyggðinni (6,5%). Ungir karlar á höfuðborgarsvæðinu eiga samkvæmt þessu býsna erfitt uppdráttar á vinnumarkaði þessa dagana.

Hlutfall starfandi í lágmarki

Rannsókn Hagstofu gefur ítarlega mynd af vinnumarkaði og dregur fram fleiri þætti en atvinnuleysið eitt og sér. Til að mynda má þar sjá að hlutfall starfandi af mannfjölda var 73% á fyrsta fjórðungi ársins, og hefur hlutfallið aldrei verið lægra frá því ársfjórðungslegar vinnumarkaðsrannsóknir hófust árið 2003. Skýrist það bæði af miklu atvinnuleysi en líka því að atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið jafn lítil og á fyrstu mánuðum þessa árs. Er það nokkurt áhyggjuefni, því færri hendur eru um að skapa verðmæti þegar þetta hlutfall lækkar og hefur það löngum verið með allra hæsta móti hérlendis meðal iðnríkja. Hins vegar fjölgaði unnum vinnustundum í viku hverri á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra. Voru þær 39,5 að jafnaði nú en 38,9 fyrir ári síðan.