Allt frá því að áætlun um afnám hafta var kynnt í júní hefur verið beðið eftir nánari útfærslu á afnámi hafta. Í kynningu var mikil áhersla lögð á stöðugleikaskatt, sem átti að geta skilað um 860 milljörðum króna í ríkissjóð. Af því sem birst hefur í kjölfarið má hins vegar ætla að stöðugleikaskatturinn komi ekki til framkvæmda, heldur muni þrotabúin undirgangast stöð­ugleikaskilyrði, en útfærsla á því er öllu óljósari. Farið hefur verið yfir þær tillögur sem lagðar voru fram að kynningu á áætluninni lokinni og var það mat manna að í stað 860 milljarða myndu um 500 milljarðar króna renna með einum eða öðrum hætti til ríkissjóðs.

Stöðugleikaskilyrðin hafa ekki verið kynnt, en þau eru m.a. byggð á greiðslujafnaðargreiningu sem unnin var í Seðlabanka Íslands. Skilyrðunum er ætlað að tryggja að afnám hafta muni ekki hafa of neikvæð áhrif á gengi krónunnar eða á hagkerfi Íslands almennt. Mikilvægt er því að skilyrðin, sem og sú greining sem þau byggja á, séu í takt við þá þróun sem fram undan er í efnahagslífinu. Skilyrðin hafa ekki, frekar en greiðslujafnaðargreiningin sjálf, verið gerð opinber og er því erfitt – ef ekki ómögulegt – að meta það hversu trúverðug þau eru.

Í sömu viku og áætlunin var kynnt birti Alþjóðagjaldeyrissjóð­urinn stöðuskýrslu um Ísland, en efni skýrslunnar fór ekki hátt, enda var frétt fréttanna áætlun ríkisstjórnarinnar.

Þar kemur fram að þrátt fyrir að AGS sjái margt jákvætt í þróun síð­ustu missera hér á landi og að framtíðin sé vissulega nokkuð björt, þá er sjóðurinn öllu varkárari en íslensk stjórnvöld í spá sinni um framhaldið. Sést það til dæmis á því að spá sjóðsins um hagvöxt og vöru- og þjónustujöfnuð á næstu árum er mun lægri en spá Seðlabankans.

Reyndar endurskoðaði Seðlabankinn spá sína niður á við í Peningamálum, sem komu út í gær, en engu að síður er Seðlabankinn mun bjartsýnni á þróun næstu ára en AGS. Þessir tveir þættir, hagvöxtur og vöru- og þjónustujöfnuður, skipta verulegu máli þegar unnin er greiðslujafnaðargreining. Miðist stöðugleikaskilyrðin t.d. við spá Seðlabankans frá því í vor gæti verið að þau nægi ekki til að viðhalda hér stöðugleika við afnám hafta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .