Útlit er fyrir að Wirecard verði fjarlægt úr Dax 30 vísitölunni á næstu dögum. Wirecard er enn hluti af vísitölunni þrátt fyrir að hafa orðið gjaldþrota í lok júní síðastliðnum. Financial Times segir frá .

Endurskoðun á Dax 30 var ekki á dagskrá hjá Deutsche Börse, þýsku kauphöllinni sem heldur utan um vísitöluna, fyrr en í september. Kauphöllin hefur þó innleitt nýjar reglur sem gera henni kleift að fjarlægja meðlimi úr vísitölunni tveimur dögum eftir að fyrirtæki hefur sótt um gjaldþrotaskipti.

Þýska fjártæknifyrirtækið komst inn Dax 30 vísitöluna, sem inniheldur þrjátíu leiðandi fyrirtæki á þýska hlutabréfamarkaðnum, í september 2018. Við inngönguna í vísitöluna hækkaði gengi félagsins verulega og náði hámarki 192,5 evrur á hlut en hlutabréfin hafa síðan þá fallið um meira en 99%.

Sjá einnig: Leyfðu starfsmönnum að kaupa í Wirecard

Heimsendingarþjónustan Delivery Hero, sem hefur höfuðstöðvar í Berlin, mun taka stað Wirecard í Dax vísitölunni. Heimsendingarfyrirtækið hefur notið góðs af aukinni eftirspurn í heimsfaraldrinum. Fyrirtækið, sem fór á markað árið 2017, starfrækir þjónustu sína í 40 löndum í dag.

Delivery Hero á þó enn eftir að skila hagnaði á ársgrundvelli. Fyrirtækið seldi þýsku dótturfyrirtæki sín Foodora, Lieferheld og Pizza.de til hollenska samkeppnisaðila sinn Takeaway.com á síðasta ári.

Ef Wirecard yrði fjarlægt úr vísitölunni yrði SAP eina hugbúnaðarfyrirtækið á Dax 30 listanum. Þetta yrði önnur breytingin á vísitölunni í ár en fasteignafélagið Deutsche Wohnen kom inn fyrir flugfélagið Lufthansa í júní síðastliðnum.