Líklegt þykir að tilkynnt verði eftir helgi að Michel Dell, fjárfestingarsjóðurinn Silver Lake Partners og Microsoft kaupi Dell með manni og mús. Michael Dell er forstjóri og stofnandi Dell. Líklegt þykir að hann eignist meirihlutann í Dell á móti sjóðnum og Microsoft.

Michael Dell stofnaði Dell formlega árið 1988. Það byggir á grunni tölvufyrirtækis sem hann stofnaði fjórum árum fyrr þegar hann var í háskólanámi í Austin í Texas í Bandaríkjunum. Fyrirtækið keypti íhluti í tölvur og setti Dell þær saman undir heitinu PCs Limited.

Reuters-fréttaveitan segir í dag að kaupin verði líklega innsigluð um helgina og hugsanlega tilkynnt um viðskiptin á mánudag. Kaupverðið er sagt nema 15 milljörðum dala, jafnvirði tæpra 1.900 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar nam verg landsframleiðsla hér á landi tæpum 1.630 milljörðum króna árið 2011. Kaupin eru skuldsett, að sögn Reuters, og fjármagnað af Barclays, Bank of America, Credit Suisse og RBC Capital.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær segir í umfjöllun um Microsoft að fyrirtækið virðist vera að missa af lestinni á nýrri öld og ekki náð að fóta sig síðustu árin. Hugsanlegt sé að fyrirtækið vilji taka tölvuframleiðslu til sín í líkingu við Apple með auknum hlut í vélbúnaðarþróun.