Dell Technologies hefur ákveðið að fækka 6.650 störfum, eða sem samsvarar 5% af starfshópi tæknifyrirtækisins, í ljósi krefjandi efnahagsumhverfis á heimsvísu.

Dell hafði þegar ráðist í ýmsar aðgerðir til að draga úr kostnaði, m.a. með því að stöðva ráðningar tímabundið og draga úr ferðakostnaði. Jeff Clark, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs dell, sagði í bréfi til starfsmanna að þessar ráðstafanir hafi ekki dugað til vegna versnandi horfa í heimshagkerfinu.

Í umfjöllun Bloomberg segir að eftirspurn eftir PC tölvum hafi dregist saman að undanförnu. Bráðabirgðatölur frá IDC sýni að vörusendingar Dell með PC tölvur á fjórða ársfjórðungi hafi dregist saman um 37% frá sama tímabili árið 2021. Um 55% af tekjum Dell má rekja til PC tölva.

Fjölmörg stórfyrirtæki hafa á undanförnum vikum tilkynnt um umfangsmiklar hópuppsagnir sem ná jafnvel til tugþúsunda starfsmanna.