Tölvuframleiðandinn Dell gaf út afkomuviðvörun á föstudag, þar sem kemur fram að fyrirtækið muni ekki ná að standa við markmið sem sett voru fyrir síðari hluta árs, segir í frétt Dow Jones.

Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 13% við fréttirnar.

Dell, sem er stærsti tölvuframleiðandi í heimi, hafði áður spáð tekjum upp á 14,2 milljarða bandaríkjadala og 33 senta hagnaði á hlut. Dell býst nú við að tekjur fyrirtækisins verði 14 milljarðar og að hagnaður verði á milli 21 til 23 sent á hlut.

Ráðamenn Dell telja að lækkunina megi rekja til aukinnar samkeppni og minnkandi eftirspurnar.

Aðrir tölvuframleiðendur hafa fundið fyrir afleiðingum viðvararinnar, en bréf í Hewlett-Packard lækkuðu um 3,8% á föstudag og bréf í Gateway lækkuðu um 5,3%.

Þó svo að greiningaraðilar telji að vandinn liggi hjá fyrirtækinu sjálfu, segja þeir einnig að þetta bendi til samdráttar í tölvusölu, þá sérstaklega borðtölvum.

Dell hefur tekið til aðgerða til að reyna að snúa þessari þróun við, meðal annars með því að taka til notkunar nýjar örflögur frá AMD (Advanced Micro Devices), en Dell hafði vanmetið velgengni þeirra og neitað að taka þær til notkunar þangað til í maí síðastliðnum, segir í fréttinni.