Tölvuframleiðandinn Dell hyggst tvöfalda fjölda starfsmanna sinna á Indlandi á næstu þremur árum, úr tíu þúsund í tuttugu þúsund, segir greiningardeild Landsbankans.

Hlutfall enskumælandi og tölvumenntaðra Indverja fer síhækkandi og launakröfur þar mun lægri en á vesturlöndum.

Mun mesta fjölgunin hjá Dell verða í þjónustu við viðskiptavini en einnig fjölgar fólki í framleiðslu- og prófunarstörfum.

Er það mat margra sérfræðinga að ástæða Dell fyrir breytingunum á Indlandi sé ekki eingöngu að lækka kostnað heldur einnig að auka markaðshlutdeild sína þar. Markaðshlutdeild Dell á heimsvísu er um 18%.

Dell hefur sem stendur 4% markaðshlutdeild á Indlandi og er þar í mikilli samkeppni við fyrirtæki á borð við Hewlett Packard og IBM.