Stjórn bandaríska tölvuframleiðandans Dell hefur samþykkt yfirtökutilboð Michael Dell, forstjóra og stofnanda bandaríska tölvuframleiðandans Dell, í fyrirtækið. Tilboðið hljóðar upp á 24,4 milljarða dala í fyrirtækið. Þetta jafngildir þrjú þúsund milljörðum íslenskra króna. Ef allt gengur eftir þá verður þetta einhver umsvifamestu fyrirtækjakaupin sem gengið hafa í gegn eftir að fjármálakreppan skall á fyrir að verða sex árum. Tilboðið hljóðar upp á 13,65 dali á hlut. Gengi bréfa félagsins stóð í 13,13,27 dölum á hlut við lokun markaða í gær. Síðan orðrómur fór á kreik um miðjan síðasta mánuð þess efnis að Dell ætlaði að bjóða í fyrirtækið hefur gengið hækkað um 22%. Fyrirtækið verður í framhaldinu tekið af hlutabréfamarkaði.

Það er fjarri því að Dell standi einn að yfirtökutilboðinu. Að baki honum standa fjárfestingasjóðurinn Silver Lake Partners og bandaríski tölvurisinn Microsoft. Í Viðskiptablaðinu sem kom út í síðustu viku sagði m.a. að Microsoft hefði misst af lestinni í spjaldtölvu- og snjallsímabyltingunni og væri að leita eftir því að koma sér á réttan kjöl með tengingu við tölvuframleiðanda eða íhlutafyrirtæki.

Samkvæmt umfjöllun The Wall Street Journal af málinu á Dell 14% hlut í fyrirtækinu og mun hann gera það áfram en leggja eignahlutinn fram í viðskiptunum. Því til viðbótar mun hann reiða fram hluta kaupverðsins. Aðrir fjárfestar munu leggja fram það sem upp á vantar auk þess sem Bank of America Merrill Lynch, Barclays, Credit Suisse og RBC Capital Markets veita lán til kaupanna.