Tölvurisinn Dell hefur ákveðið að byrja að taka við bitcoin greiðslum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu . Dell er eitt stærsta tæknifyrirtæki í heimi og því þykir ákvörðun Dell mikil lyftistöng fyrir bitcoin rafmyntina.

Fyrst um sinn mun greiðslumátinn eingöngu vera í boði fyrir viðskiptavini Dell í Bandaríkjunum. Dell segir að notkun bitcoin hafi þá kosti að notkunin fer ekki fram í gegnum fjármálafyrirtæki og því séu mun lægri færslugjöld en með hefðbundnu kreditkorti.

Á heimasíðu Dell má finna leiðbeiningar hvernig hægt er að eignast bitcoin í samstarfi við Coinbase markaðstorgið. Verðmæti myntarinnar hefur vaxið mikið á örfáum árum, en heildarverðmæti bitcoin í umferð er nú metið á um 8 milljarða bandaríkjadala sem er jafnvirði um 920 milljarða íslenskra króna.