*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 5. ágúst 2020 11:11

„Dellumálið“ um 3. orkupakkann jarðað

Fyrrverandi ráðherra segir umræðu um þriðja orkupakkann í forsetakosningunum verið lokakafla pólítískrar furðusögu.

Ritstjórn
Björn Bjarnason var lengi menntamála og síðar dómsmálaráðherra sem og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Aðrir ljósmyndarar

Útreið Guðmundar Franklíns Jónssonar í forsetakosningunum ætti endanlega að jarða það „dellumál“ sem umræðan um þriðja orkupakkann er. Þetta segir Björn Bjarnason, fv. ráðherra, í föstum pistli sínum í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í dag.

Þar fjallar Björn meðal annars um forsetakosningarnar fyrr í sumar þar sem Guðmundur Franklín Jónsson bauð sig fram gegn sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni. Sem kunnugt er hlaut Guðni Th. yfirburðarkosningu og í pistli sínum segir Björn að frá upphafi hafi legið ljóst fyrir að Guðmundur Franklín ætti enga sigurvon.

Björn rifjar upp ummæli Guðmundar Franklíns um að þriðji orkupakkinn hefði verið kveikjan að framboði hans og ætlun sín væri að standa gegn frekari skrefum á þeirri braut.

„Guðmundur Franklín beitti sér á sínum tíma fyrir undirskriftasöfnun gegn staðfestingu laga í tengslum við 3. orkupakkann. Alls mótmæltu 7.643 á netinu og 5. September 2019 afhenti Guðmundur Franklín forseta Íslands mótmælin með ósk um að hann beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðni Th. gerði það ekki,“ rifjar Björn upp.

Hann bætir því við að framboðið sýni að ekki þurfi alltaf þýðingarmikil mál á stjórnmálavettvangi til að velta þungu hlassi hafi framboðið verið lokakafli „pólitísku furðusögunnar“ um þriðja orkupakkann.

„Orkupakkamálið var blásið út fyrir öll skynsamleg mörk. Útreið Guðmundar Franklíns í forsetakosningunum ætti endanlega að jarða þetta dellumál,“ segir Björn jafnframt.