Deloitte ehf. hagnaðist um tæpar 305 milljónir króna á síðasta rekstrarári, sem lauk 31. maí síðastliðinn. Hagnaður félagsins dróst saman um ríflega 15% frá fyrra rekstrarári þegar félagið hagnaðist um 359 milljónir.

Ráðgjafar- og endurskoðunarfélagið velti 4,9 milljörðum króna á rekstrarárinu sem leið, samanborið við 4,4 milljarða árið áður. Rekstrarkostnaður félagsins nam 4,5 milljörðum króna, samanborið við 4,0 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði lítillega milli ára, úr 432 milljónum í 425 milljónir.

Launakostnaður félagsins nam 3,5 milljörðum króna, samanborið við 3,2 milljarða árið áður, en meðalfjöldi stöðugilda jókst úr 226 í 244.

Eignir félagsins námu ríflega 2,5 milljörðum í lok rekstrarárs, samanborið við tæpa 2,2 milljarða árið áður. Skuldir félagsins námu tæpum 2 milljörðum samanborið við 1,5 milljarð árið áður og eigið fé félagsins nam 573 milljónum samanborið við 629 milljónir árið áður. Eiginfjárhlutfall félagsins lækkaði því úr 29,1% í 22,5%.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrif COVID-19 hafi verið óveruleg á rekstur félagsins á rekstrarárinu og þess vænst að svo verði áfram á núverandi rekstrarári. Þá kemur fram í skýrslunni að stjórn leggi til að allt að 280 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á núverandi rekstrarári.

Þorsteinn Pétur Guðjónsson er forstjóri Deloitte.