Síminn hefur selt allt hlutafé sitt í dótturfélögunum Talenta og Staka Automation. Deloitte og framkvæmdastjórar dótturfélaganna kaupa fyrirtækin. Um 35 starfsmenn starfa hjá þeim báðum. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Þar er haft eftir Sigurði Páli Haukssyni, forstjóra Deloitte, að markmiðið með kaupunum sé að byggja grunn að öflugri upplýsingatækniþjónustu Deloitte á Íslandi. Hjá Deloitte starfi um 30 þúsund starfsmenn í upplýsingatækniþjónustu um allan heim og muni Talenta og Staki tengjast þessu alþjóðlega neti sérfræðinga.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir söluna hluta af stefnumörkun Símans. Kjarnastarfsemi Símans hafi verið endurskilgreind síðustu misseri og telji hann að með því að einbeita sér að Símanum, Sensa og Mílu nái fyrirtækið betri árangri í rekstri, samsteypan verði einfaldari, eftirfylgni verkefna og ákvarðanir auðveldari.

Kaup Deloitte á Staka og Talenta eru háð m.a fyrirvörum áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.