Deloitte á Íslandi og Symantec hafa skrifað undir samstarfssamning þar sem Deloitte verður umboðsaðili fyrir Symantec Data Loss Prevention á Íslandi. Í tilkynningu segir að með tilkomu samstarfsins geti Deloitte boðið viðskiptavinum sínum upp á áhættugreiningu varðandi gagnaleka með notkun hugbúnaðarins ásamt því að selja hugbúnaðinn á Íslandi.

Kerfið er hannað til að greina og vernda fyrirtæki eða stofnanir gegn mögulegu gagnatapi eða gagnaleka. Kerfið vaktar, greinir eða lokar fyrir að viðkvæm gögn sem verið er að; nota, flytja eða geyma fari á „flakk“.

Í tilkynningunni er haft eftir Dr. Rey LeClerc Sveinssyni, yfirmanni gagnaverndar og upplýsingaöryggis hjá Deloitte, að í samstarfi við Symantec muni Deloitte auka við þjónustuframboð sitt. Sérfræðingar Deloitte hafi breiða þekkingu og reynslu á þeim fjölmörgu verkefnum sem fyrirtæki standi frammi fyrir þegar komi að upplýsingaöryggi.