þorvarður gunnarsson
þorvarður gunnarsson

Deloitte vísar á bug aðdróttunum um að útreikningar fyrirtækisins á áhrifum frumvarps um veiðigjöld hafi verið keypt af útvegsmönnum. Í yfirlýsingu frá Deloitte, sem send er að beiðni Þorvarðar Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Deloitte, er farið yfir þá gagnrýni sem komið hefur fram frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og ráðuneyti hans og henni svarað.

Vekur Deloitte athygli á því að stjórnvöld hafa sjálf enga útreikninga birt af neinu tagi um áhrif og afleiðingar breytinganna. Þá hafi Deloitte ekki gleymt að taka áhrif tekjuskatts inn í sína útreikninga, heldur taki fullt tillit til þeirra.

Deloitte segist styðjast við opinberar tölur frá Hagstofu Íslands um afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna á árunum 2001-2010, m.a. varðandi framlegð og afskriftir atvinnugreinarinnar. „Varðandi vextina kjósum við að frekar að miða við greidda vexti af langtímalánum en gjaldfærðan fjármagnskostnað eins og hann kemur fram hjá Hagstofunni. Þannig reiknum við 5,5% vexti af langtímaskuldum sem jafngildir fjármagnskostnaði upp á 132 milljarða króna á þessu 10 ára viðmiðunartímabili. Gjaldfærður fjármagnskostnaður samkvæmt tölum Hagstofunnar er hins vegar 276 milljarðar króna á sama tímabili. Taka ber fram að við teljum vaxtaprósentuna sem við notum vera í lægri kantinum,“ segir í yfirlýsingunni.

Kemur eignarhaldi ekki við

Þá lítur Deloitte á veiðigjöldin sem skattlagningu, sem ekkert annað en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja getur staðið undir. Er í yfirlýsingunni m.a. bent á að í frumvarpinu sjálfu sé talað um „sérstaka skattlagningu í sjávarútvegi.“

Hvað varðar útreikningana segir Deloitte að niðurstaða þeirra hafi ekkert að gera með eignarhald á sjávarauðlindinni að gera. „Útreikningar Deloitte sýna að veiðigjöldin sl. 10 ár, eins og þau koma fram í útreikningi í greinargerð sjálfs frumvarpsins - bakreiknuð til verðlags hvers árs, hefðu verið meira en 100% af hagnaði í sjávarútvegi á þessu tímabili. Þetta er staðreynd og hefur nákvæmlega ekkert með eignarhald á sjávarauðlindinni að gera. Ljóst er að fiskveiðiauðlindin ER sameign þjóðarinnar og hagsmunir eigandans eru fyrst og fremst að hér sé rekin hagkvæmur sjávarútvegur. Hagkvæmni næst hins vegar aldrei ef áform um að skattleggja allan hagnað greinarinnar ná fram að ganga.“

Þá gagnrýnir Deloitte þá röksemd að skattleggja þurfi sjávarútveginn sérstaklega vegna þess að hann hafi hagnast undanfarið á raungengi krónunnar. „Nú er það svo að allar útflutningsgreinar, einnig áliðnaður og ferðaþjónusta, eru háðar gengi krónunnar. Gengissveiflurnar hafa verið miklar í báðar áttir á síðustu 10 árum. Á sama röksemd þá ekki alveg eins við um önnur útflutningsfyrirtæki, t.d. í áliðnaði og ferðaþjónustu?“