Síminn hefur falið Deloitte að taka yfir hugbúnaðarþróun og rekstur viðskiptamannakerfa Símans, auk þess að veita Símanum stefnumótandi tækni- og ráðgjafarþjónustu þeim tengdum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Samhliða þessu munu 14 starfsmenn Símans færast til Deloitte, sem ásamt alþjóðlegum sérfræðingum.

„Deloitte hefur verið á markvissri umbreytingarvegferð undanfarin ár. Þar spila tveir þættir lykilhlutverk. Annars vegar alþjóðlegt samstarf innan Deloitte þar sem við vinnum náið með sérfræðingum í tilteknum atvinnugreinum og þjónustuþáttum. Hins vegar er það aukin fjölbreytni í þjónustuframboði með sérstaka áhersla á að styðja við framsæknustu fyrirtæki landsins í þeirra umbreytingarverkefnum á tæknihliðinni. Samningurinn við Símann er til marks um hvort tveggja og erum við afar þakklát fyrir það traust sem Síminn sýnir okkur,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte.

„Síminn hefur um nokkurt skeið unnið með Deloitte í ýmsum sérhæfðum verkefnum. Félagið er að taka örum breytingum, bæði út frá eftirspurn viðskiptavina sem og þjónustuframboði okkar. Ljóst var að Síminn þyrfti að ráðast í stórtækar breytingar í innviðum og þróun, því fannst okkur kjörið að taka samstarfið við Deloitte áfram á þennan hátt. Deloitte kemur með alþjóðlega reynslu úr sambærilegum verkefnum sem er okkur ómetanleg og illfáanleg hérlendis. Við berum fullt traust til Deloitte til að skila tilætluðum árangri í því krefjandi verkefni sem framundan er. Ábatinn mun birtast í ýmsum myndum, skilvirkara rekstrarumhverfi, aukin hagkvæmni í rekstri og síðast en ekki síst í jákvæðari þjónustuupplifun okkar viðskiptavina,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.