Bandaríska flugfélagið Delta (Delta Air Lines) mun fljúga daglega milli Íslands og New York í sumar, þetta er veruleg fjölgun flugferða frá því í fyrra þegar flogið var fimm eða sex daga vikunnar.

Þetta er fjórða sumarið í röð sem Delta býður upp á flug milli Keflavíkurflugvallar og Kennedy flugvallar í New York en mun fyrsta flugferð ársins vera frá Bandaríkjunum til Íslands þann 5. júní.

Í fréttatilkynningu segir Perry Cantarutti, forstjóri Delta í Evrópu, að því hefði verið spáð að ferðamönnum frá Bandaríkjunum til Íslands fjölgi um 30% á þessu ári og að flugfélagið sé því að bregðast við þessum vaxandi áhuga með því að fjölga flugferðum.

Aukin ferðatíðni mun einnig skapa góðan valkost fyrir ferðalög frá Íslandi til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum en New York með tengiflugi Delta til þeirra 50 áfangastaða í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku sem félagið þjónar frá Kennedyflugvelli, bætti Cantarutti við.

Forystumenn í íslenskri ferðaþjónustu fagna einnig auknu ferðatíðni Delta.

Grímur Sæmundseen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði aukningu ferða hjá Delta til að mæta þessum mikla áhuga vestanhafs á Íslandi vera ánægjulega fyrir íslenska ferðaþjónustu og að bandarískir ferðamenn hafi löngum verið meðal mikilvægustu viðskiptavina ferðaþjónustunnar.