Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines á nú í viðræðum við japanska flugfélagið Japan Airlines um möguleg kaup þess fyrrnefnda í Japan Airlines.

Þannig hyggst Delta, sem jafnframt er stærsta flugfélag heims eftir sameininguna við Northwest Airlines í fyrra, víkka starfssemi sína á Asíumarkaði. Samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar um málið hyggst Delta þó aðeins vilja eignast minnihluta í Japan Airlines en með því að eignast ráðandi hlut í félaginu sé Delta búið að víkka út starfsemi sína verulega í vesturátt, þ.e. inn á Asíumarkað.

Heimildarmaður Reuters kemur ekki fram undir nafni og tekið er fram í fréttinni að ekki hafi verið gengið frá samningunum né séu viðræðurnar opinberar.

Aðrir viðmælendur Reuters, sem koma fram undir nafni og eru kynntir sem sérfræðingar í flugsamgöngum, tala þó vel um möguleg kaup Delta á hlut í Japan Airlines. Með sameiningunni við  Northwest í fyrra hafi Delta stigið stórt skref í millilandaflugi en Northwest var, og er, eitt stærsta millilandaflugfélag Bandaríkjanna með regluleg flug bæði til Evrópu og Asíu.

Ef rétt reynist er þó líklegt að kaupin verða háð samþykki bandarískra samkeppnisyfirvalda þar sem Delta verður þá með ráðandi markaðsstöðu á millilandaflugi milli Bandaríkjanna og Asíu.

Félögunum tveimur, Delta og Japan Airlines, verður þó ekki heimilt að eiga samráð um fríðindi, verð og flugáætlanir samkvæmt japönskum lögum. Sem dæmi má nefna að Delta og Air France eiga í góðu samstarfi um ætlunarflug, verð og fríðindi vildarklúbbsmeðlima. Þannig er algengt að viðskiptavinir Delta versli við Air France þegar þeir hyggjast fara lengra austur en bara til Frakklands frá Bandaríkjunum.

Erfitt fyrir önnur flugfélög að veita samkeppni

Bloomberg fréttaveitan fjallar einnig um málið og telur líklegt að kynnt verði um viðræðurnar fljótlega. Félagið er skráð á markað í Bandaríkjunum og því ekki leyfilegt að eiga í „leynilegum“ viðræðum.

Ónafngreindur viðmælandi Bloomberg segir þó að með því að kaupa minnihluta í Japan Airlines og hefja samstarf um tengiflug og verð sé Delta orðið ráðandi á markaði bæði í austur og vestur frá Bandaríkjunum. Þessi sami viðmælandi segir að önnur flugfélög hafi að öllum líkindum ekki burði til að veita þessum vaxandi risa mikla samkeppni.