Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, sem í október keypti bandaríska flugfélagið Northwest Airlines, á nú í samningaviðræðum við Boeing flugvélaframleiðandann um að breyta pöntunum félaganna tveggja.

Frá þessu er greint í Wall Street Journal í dag.

Félögin höfðu bæði pantað Boeing þotur en ljóst er að ekki mun vera þörf á þeim öllum eins og talið var. Þá er líka reynt að ná samningum um að breyta þeim tegundum sem þegar hafa verið pantaðar.

Þannig hafði Northwest pantað 25 vélar af gerðinni 787 Dreamliner. Samkvæmt heimildum WSJ leitast Delta nú eftir því að kaupa frekar Boeing 777-200LR vélar.

Boeing 777-200LR rúmar 50 – 60 fleiri ferþega en 787 Dreamliner og getur einnig flogið lengra. Vélin er sögð henta framtíðarplönum Delta betur en 787 Dreamliner þar sem áherslan liggur nú á lengri flugleiðir utan Bandaríkjanna.

Blaðið tekur að vísu fram í frétt sinni að ekkert hefur fengið staðfest um fjölda pantana sem félagið leitast eftir að breyta.

Þó er talið líklegt að Boeing sýni liðlegheit við hið nýja sameinaða flugfélag þar sem Boeing hefur þegar tryggt viðskipti með 787 Dreamliner vélina. Auk þess er 777-200LR vélin dýrari.

Þess má til gamans geta að Boeing afhenti fyrstu 777-200LR vélina í mars á þessu ári einmitt til Delta Air Lines. Delta á 15 vélar pantaðar næstu 6 árin.