Tap bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines, stærsta flugfélagi heims, nam á fjórða ársfjórðungi síðasta árs um 1,4 milljörðum Bandaríkjadala eða því sem nemur um 2,1 dölum á hvern hlut samanborið við tap upp á 70 milljónir dala eða 18 centum á hvern hlut á sama tíma árið áður.

Í uppgjörstilkynningu frá félaginu kemur fram að aukinn taprekstur megi annars vegar rekja til hækkandi eldsneytiskostnaðar og hins vegar kostnaðar sem tengist yfirtöku félagsins á Northwest Airlines en sem kunnugt er sameinuðust félögin í fyrra með yfirtök Delta Air.

Þá er sérstaklega greint frá kostnaði félagsins vegna uppsagna starfsmanna og endurnýjun tækjabúnaðar sem félagið segir að muni ekki koma til á næstu árum.

Þannig hafi félagið tapað um 340 milljónum dala eða um 50 centum á hvern hlut séu slík atriði, þ.e.a.s. kostnaðarliðir sem koma bara einu sinni fyrir, aðskildir frá meginuppgjöri félagsins.

Viðmælandi Bloomberg fréttaveitunnar segir þó að slíkar skýringar séu aðeins gerðar í fegrunarskyni. Það sé ekki hægt að fela mikið tap á árinu og ljóst að flugfélagið þurfi að taka til í ranni sínum ætli það sér að snúa rekstrinum við.