Áætlunarflug bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines milli New York og Keflavíkur hefst á nýjan leik mánudaginn 3. júní nk. en félagið hefur flogið hingað til lands sl. tvö sumur.

Í tilkynningu frá Delta kemur fram að flogið verður allt að sex sinnum í viku yfir sumarmánuðina í samvinnu við Air France KLM flugfélagið, en sem fyrr verður notast verður við 170 sæta Boeing 757-200 vél.

„Beint áætlunarflug Delta fjölgar valmöguleikum Íslendinga sem ferðast til Bandaríkjanna. Þá munu þúsundir bandarískra ferðamanna nýta sér þessa þjónustu yfir sumarmánuðina og íslensk ferðaþjónusta mun njóta góðs af því,” segir Perry Cantarutti, aðstoðarforstjóri Delta í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, í tilkynningunni.

Þá kemur fram að í fyrra hafi félagið flutt tæplega 21 þúsund farþega til og frá Íslandi og að sætanýtingin í vélum félagsins hafi verið um 89% að jafnaði.

Þá kemur einnig fram að farþegar sem fljúga með félaginu á milli Íslands og New York í sumar muni njóta góðs af endurbættri aðstöðu á JFK flugvellinum í New York. Flughöfnin er ein sú stærsta í Norður Ameríku en áætlaður kostnaður við byggingu hennar nam um 165 milljörðum króna.