Delta Air Lines hefur ákveðið að auka áætlunarflug sitt milli Íslands og New York úr fjórum mánuðum í sjö. Fyrsta ferð næsta árs verður 12. febrúar og verður flogið þrisvar í viku fram í byrjun maí, en eftir það verður flogið daglega til loka september. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Vinsældir þessarar flugleiðar hafa vaxið jafnt og þétt og það er ánægjulegt að geta brugðist við með því að lengja ferðatímabilið um þrjá mánuði,“ segir Nat Pieper, forstjóri Delta í Evrópu.

„Rúmlega 140 þúsund farþegar hafa flogið með Delta milli Íslands og Bandaríkjanna frá því við byrjuðum árið 2011. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru nú fjölmennasti hópurinn sem kemur til Íslands. Með lengra ferðatímabili styðjum við þennan vöxt ferðaþjónustunnar, og bjóðum íslenskum viðskiptavinum um leið hagkvæma og öfluga tengingu við 60 áfangastaði vestan hafs,“ segir hann.

Líkt og fyrri ár notar Delta Boeing 757 þotur á flugleiðinni milli Íslands og New York. Auk lúxusfarrýmis með allt að 24 sætum býðst farþegum aukin þægindi í Delta Comfort+ með rýmra bil á milli sæta og hægt að halla sætisbökum 50% meira aftur en á almennu farrými.