Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, sem er stærsta flugfélag heims, tilkynnti í gær að félagið ætli sér að kaupa olíuhreinsistöð til eigin nota. Forsvarsmenn félagsins segja að með kaupunum sé markmiðið að spara til lengri tíma við stærsta útgjaldalið félagins, flugvélaeldsneyti.

Frá þessu er greint í New York Times (NYT). Það er dótturfélag Delta, Monroe Energy, sem hefur náð samningum um kaup á Phillips 66 olíuhreinsistöðinni í Philadelfiu í Bandaríkjunum. Félagið greiðir 150 milljónir Bandaríkjadala fyrir stöðina, en fær þó til baka 30 milljónir dala frá ríkisstjórninni í Philadelfiu. Þá er gert ráð fyrir að félagið þurfi að endurbæta stöðina fyrir um 100 milljónir dala.

Richard Anderson, forstjóri Delta, sagði í samtali við NYT í gær að þetta væri liður í því að reyna að ná meiri stjórn á þeim mikla útgjaldalið sem eldsneytiskaup eru. Hann áætlar að kaupin muni innan skamms lækka eldsneytiskostnað félagsins um 300 milljónir dala á ársgrundvelli. Talið er að olíuhreinsistöðin geti séð Delta fyrir um 80% af því eldsneyti sem félagið þarf á ári.