Bandarísku flugfélögin Delta Air Lines og Northwest Airlines hafa hafið viðræður um sameiningu félaganna á ný en í byrjun mars var greint frá því að upp úr samningaviðræðum hefði slitnað. Financial Times greinir frá þessu í dag.

Blaðið hefur eftir heimildarmönnum, kunnugir málinu að stjórn Delta hefði kallað saman til fundar í síðustu viku til að ræða þá ákvörðun um að hefja aftur samningaviðræður við Northwest.

Eins og fyrr segir slitnaði upp úr viðræðum í byrjun mars. Þá hafði stjórn Northwest lýst því yfir að félagið væri tilbúið fyrir sameiningu en stéttarfélag flugmanna Northwest mótmæltu hástöfum og sögðust ekki tilbúnir fyrir sameiningu.

Félag flugmanna, Air Line Pilots Association náði þannig ekki að búa til drög að samningum flugmanna við hið nýja félag en slíkt þarf að liggja fyrir áður en af sameiningu verður.  Í kjölfarið sendu félögin frá sér sameiginlega tilkynningu um að gera hlé á viðræðum.

Eins og greint var frá um miðjan mars hefur Delta Air Lines boðið um 30 þúsund starfsmönnum starfslokasamning sem er rúmlega helmingur starfsmanna félagsins.

Í dag er Delta þriðja stærsta flugvélag í heimi og Northwest það fimmta stærsta. Náist samningar milli félagana verður sameinað félag þeirra stærri en American Airlines sem er stærsta flugfélag heims í dag.

Hækkandi olíuverð og lækkun gengis Bandaríkjadals hefur haft mikil áhrif á flugfélög vestanhafs. Lággjaldaflugfélagið Skybus Airlines tilkynnti á laugardag að félagið myndi hætta starfssemi og varð þar með þriðja flugfélagið á stuttum tíma til að hætta starfssemi. Áður höfðu ATA Airlines og Aloha Airlines á Hawai tilkynnt um lokun.