Í gærkvöldi var ákveðin sameining Delta Air Lines og Northwest Airlines. Með sameiningunni verður til stærsta flugfélag heims en á fréttavef Reuters kemur fram að Delta mun kaupa upp alla hluti Northwest fyrir um 5 milljarða Bandaríkjadala. Ekki verður þó greitt í peningum heldur mun Delta greiða fyrir Northwest með hlutabréfum í sjálfum sér og munu hluthafar Northwest fá 1,25 hlut í Delta fyrir hvern hlut í Northwest.

Velta hins nýja flugfélags, sem mun heita Delta verður um 35 milljarðar Bandaríkjadala og starfsmenn verða um 75 þúsund. Höfuðstöðvar þess verða í Atlanta.

Enn er þó þrándur í götu sameiningarinnar en flugmenn félaganna hafa ekki formlega samþykkt samrunann en eins og fram kom í gær eru kjör flugmanna félaganna ólík og alls óvíst að hægt verði að semja um sömu kjör fyrir alla flugmenn í hinu nýja félagi. Fréttavefur BBC greinir frá því að verkalýðsfélag flugmanna Northwest muni ekki samþykkja samrunann en kjör þeirra munu að öllum líkindum lækka að einhverju leyti við sameininguna.

Ekki hefur verið greint frá því hvort einhverjum starfsmönnum verði sagt upp við sameininguna en Delta hefur þegar greint frá því að félagið muni segja upp um 2.000 manns en auk þess hefur Delta boðið um 30.000 starfsmönnum svokallaða starfslokasamninga.

Viðræður hafa verið milli félaganna um nokkurt skeið en þær stöðvuðust um tíma vegna andstöðu flugmanna. Í byrjun apríl tóku félögin upp viðræður á ný sem leitt hafa til sameiningu nú.

Samkeppnisyfirvöld eiga enn eftir að samþykkja samruna félaganna en talsmenn beggja félaga segja að ekki bendi til annars en að sameiningin verði samþykkt.