Fyrirtækið De Beers, sem er stærsti demantaframleiðandi í heimi, hefur stofnað vörumerkið Lightbox. Tilgangurinn á bak við stofnun vörumerkisins er að hefja sölu á skartgripum úr demöntum sem búnir eru til á rannsóknarstofu. CNN greina frá þessu.

Þessar fregnir koma mikið á óvart, þar sem að fyrirtækið hefur verið mjög gagnrýnið á gervi-demanta og hvatt neytendur til að halda sér við „alvöru“ steina. Stjórnendur félagsins hétu því einnig fyrir nokkru síðan að þeir myndu aldrei selja gervi-steina.

Lightbox mun bjóða neytendum upp á skartgripi úr gervi-demöntum á verði sem er aðeins brot af því sem De Beers rukkar fyrir skatrgripi sem framleiddir eru úr steinum sem dregnir eru upp úr jörðinni. Verð skartgripanna mun vera á bilinu 200-800 dollarar og fer verðið eftir því hversu mörg karöt steinarnir í skartgripunum eru. Skartgripirnir munu fara í sölu í september.

Bruce Cleaver, forstjóri De Beers, segir að með stofnun vörumerkisins sé fyrirtækið að koma til móts við óskir neytenda, sem kalla eftir skartgripum á viðráðanlegu verði.