Ef sannleikskjarni er í orðatiltækinu "allt er þegar þrennt er" ættu stjórnendur Ascot-veðreiðavallarins að vera áhyggjufullir um þessar mundir. Endurbætur á vellinum sögufræga, sem tóku 20 mánuði og kostuðu 26,6 milljarða, teljast ekki vel heppnaðar og hafa verið gagnrýndar talsvert síðan völlurinn var opnaður í júní síðastliðnum. Í síðustu viku tilkynnti svo demantaframleiðandinn De Beers að fyrirtækið hygðist slíta samstarfi við Ascot, en De Beers hefur auglýst hjá Ascot í 35 ár. Ef stjórnendur Ascot eru hjátrúarfullir ættu þeir ef til vil að fá sér viðbótartryggingu ef ske kynni að loftsteinn lenti á leikvanginum á næstunni, segir í frétt The Guardian.

Ekki nóg með að De Beers hafi lagt um 100 milljónir króna á ári í Ascot veðreiðarnar, demantafyrirtækið hefur veitt veðreiðunum ákveðinn virðuleik og tryggt þeim sess sem fremsta veðhlaupabrautin í Bretlandi. Það mun reynast Ascot nánast ómögulegt að finna verðugan staðgengil sem tryggir þeirra stöðu áfram, sérstaklega þegar endurbæturnar heppnuðust ekki betur en raun bar vitni.

Þau fyrirtæki sem eru nægjanlega fjársterk til að taka við af De Beers munu væntanlega rannsaka stöðu Ascot rækilega og munu gallar vallarins væntanlega koma mjög fljótlega í ljós. Eftir endurbæturnar virðist útsýni áhorfenda vera af skornum skammti, í sumum sætanna sést jafnvel alls ekkert á brautina og verður að teljast ólíklegt að fyrirtæki hafi áhuga á að eyða stórum upphæðum í að styrkja viðburði sem áhorfendur sjá ekki, segir í fréttinni.