Gallalaus 100 karata demantur seldist á 22,1 milljón dala, andvirði um þriggja milljarða króna, í uppboði hjá uppboðshúsinu Sotheby's í New York í gær.

Steinninn, sem grafinn var úr jörðu af De Beers námafyrirtækinu í Suður-Afríku, gekk út aðeins þremur mínútum eftir að uppboðið hófst, en kaupandinn er óþekktur. Fyrir uppboðið hafði verið gert ráð fyrir að steinninn færi fyrir 19-25 milljónir dala.

Aðeins hafa sex gallalausir demantar í heiminum sem vega 100 karöt eða meira verið seldir á síðustu 25 árum. Heilt ár tók að skera steininn og pússa hann.

Í sama uppboði voru 350 gimsteinar seldir og nam samanlagt kaupverð þeirra ríflega fimmtíu milljónum dala. Dýrasti gimsteinn sem seldur hefur verið á upphafi er hin svokallaða Bleika stjarna, gallalaus bleikur demandur, sem seldist fyrir tveimur árum á uppboði í Genf í Sviss.

Á heimasíðu Sotheby's má sjá myndband af demantinum sem seldur var í gær.