Lögmaðurinn Haraldur Flosi Tryggvason hefur komið víða við í íslensku samfélagi. Auk þess að reka eigin lögmannsstofu gegnir hann í dag stöðu stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, er í stjórn Hörpu, Sítusar og fyrirtækisins Fáfnir Offshore þar sem uppbygging þjónustufyrirtækis fyrir olíuiðnað er á fullri ferð.

Haraldur Flosi var 27 ára þegar hann ákvað að setjast á skólabekk og fara í laganám. „Ég dembdi mér í laganám þegar frumburðurinn var á leiðinni. Á þeim tíma var ég í tónlistarbransanum að róta og spila og græja. Hugsunin hefur væntanlega verið sú að nú væri komið að því að tryggja sér skrifstofustarf. Það náði nú ekkert mikið lengra en það í sjálfu sér. Ég fór í nemendaskrá í háskólanum og það var guðfræði, sálfræði eða lögfræði sem kom til greina. Það var kannski að hluta til tilviljun að það varð lögfræði.

„Þetta er praktískt nám og ég bar virðingu fyrir lögfræðinni sem slíkri. Það voru engin fastmótuð áform önnur en að tryggja sér lífsviðurværi,“ segir Haraldur spurður hvað hafi orðið til þess að hann hafi farið út á braut lögfræðinnar.

Eftir námið starfaði Haraldur meðal annars hjá yfirskattanefnd og hjá Jóni Guðmundssyni á Fasteignamarkaðnum.