Ef til vill hefur þróunin á vettvangi alþjóðamála ekki verið Barack Obama, forsetaefni Demókrataflokksins, hagstæð að undanförnu.

John McCain, frambjóðandi repúblikana, er sagður sérfróður um utanríkismál og hefur gert mikið úr reynsluleysi andstæðings síns.

Hann hefur og gert því skóna að það kunni að vera Bandaríkjamönnum hættulegt að veita Obama stjórnartaumana á svo viðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi.

Og vissulega eru tímarnir viðsjárverðir: Auk ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafsins eru samskipti stjórnvalda í Washington við Kremlarbændur nánast við alkul og á sama tíma ríkir feikileg ólga í mikilvægum ríkjum á borð við Pakistan, þar sem stjórnvöld hafa verið bandamenn ríkisstjórnar George Bush Bandaríkjaforseta í hinu hnattræna stríði gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Framan af í kosningabaráttunni töldu margir að hún myndi fyrst og fremst snúast um efnahagsmálin. Staða mála í bandaríska hagkerfinu gefur vissulega ástæðu til þess.

Stjórnmálaskýrendur telja að Obama standi betur að vígi í efnahagsmálunum og að niðursveiflan styrki stöðu demókrata þar sem kjósendur kunni að hafa tilhneigingu til að kenna flokknum sem hefur farið með framkvæmdavaldið síðustu ár um stöðu mála. Varla bætir úr skák að hermt er að McCain hafi viðurkennt opinberlega að hann sé enginn sérfræðingur um efnahagsmál

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .