Háttsettir demókratar á Bandaríkjaþingi hyggjast nú reyna að efla efnahagskerfi Bandaríkjanna með aðgerðum þess efnis. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir kostnaðarsamar aðgerðir til bjargar efnahag landsins vera nauðsynlegar.

Ekki er langt síðan þingið samdi um aðgerðarpakka sem hljóðar upp á 175 milljarða bandaríkjadali. Telja menn nú að sú upphæð muni duga skammt til þess að ráða fram úr vandanum og hafa demókratar nú nefnt upphæðir á borð við 500 til 700 milljarða bandaríkjadali. Vonast er til að tillögur demókrata nái fram sem fyrst, áður en Barack Obama tekur við sem forseti.

Pelosi segir að aðgerðirnar þurfi að vera yfirgripsmiklar. Nauðsynlegt sé að skapa ný störf og styrkja fyrirtæki. Auk þess munu skattalækkanir koma til. Obama hefur tekið í sama streng og Pelosi en í útvarpsávarpi nýlega sagði hann að stefnt sé að því að skapa 2,5 milljónir nýrra starfa fyrir árið 2011.

Obama vinnur nú hörðum höndum að því að draga úr áhrifum kreppunnar, þó svo hann taki ekki við embætti fyrr en í byrjun næsta árs. Á morgun mun hann tilkynna um val sitt á Timothy Geithner sem næsta fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

Þegar spurðist úr um að Geithner hafi orðið fyrir valinu hækkuðu markaðir í Bandaríkjunum snarpt, svo ljóst er að til mikils er að vænta af Geithner.