Blað var brotið í sögu Bandaríkjanna í dag þegar alríkisdómari veitti borgaryfirvöldum í Detroit heimilt til greiðslustöðvunar samkvæmt þarlendum gjaldþrotalögum. Annað eins hefur aldrei áður gerst í Bandaríkjunum. Forsvarsmenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða mótmæltu því að borgin færi í þrot en dómari vísaði öllu slíku á bug. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá var óskað eftir gjaldþroti Detroit í sumar.

Dómari í málinu sagði borgina vera að sligast undan skuldbindingum sínum og þurfa á hjálp að halda, glæpir að aukast og lífskjör borgarbúa að versna. Ljóst sé að borgaryfirvöld geti ekki lengur séð íbúum fyrir nauðsynjum á borð við viðunandi löggæslu, brunavarnir og aðra þjónustu.