Bandaríska borgin Detroit er í afar vondri stöðu fjárhagslega séð, að mati Kevyn Orr, sem hefur fengið það verkefni að taka fjármál borgarinnar föstum tökum. Michigan ríki skipaði Orr neyðarstjóra yfir borginni í mars og í dag kynnti hann stöðuna eins og hún horfir við honum. Sagði hann borgina vera „augljóslega gjaldþrota“.

Benti hann á að undanfarin tíu ár hafi halli á borgarsjóði verið yfir 100 milljónum dala að meðaltali á ári og að útlit sé fyrir að hallinn í ár nái 386 milljónum dala innan tveggja mánaða. Vandi borgarinnar er margþættur og á sér m.a. rætur í hnignun bílaframleiðslu í borginni en einnig slakri fjármálastjórnun og spillingu. Í mars var fyrrverandi borgarstjóri Detroit, Kwame Kilpatrick, dæmdur fyrir spillingu og mútuþægni.

Þá eru lífeyris- og heilbrigðisskuldbindingar borgarinnar henni þungur baggi. Nú eru lífeyrisþegar í Detroit tvisvar sinnum fleiri en skattborgarar.