Detroit borg í Michiganríki í Bandaríkjunum, sem úrskurðuð var gjaldþrota á síðasta ári, mun hefja greiðslur til kröfuhafa í dag. BBC News greinir frá þessu.

Kevyn Orr, sem skipaður var neyðarstjóri yfir borginni í mars á síðasta ári, tilkynnti í bréfi til Rick Snyder, ríkisstjóra Michigan, að fjármálakrísa borgarinnar hefði verið lagfærð. Hefur hann því sagt af sér sem neyðarstjóri borgarinnar, og sagði hann jafnframt að borgin væri nú tilbúin til þess að vaxa á ný. Orr benti hins vegar á að þótt það væru mikilvæg tímamót að ljúka þrotameðferð borgarinnar væri enn mikil vinna framundan.

Vandamál Detroit eiga sér nokkra forsögu en á milli áranna 2000 og 2010 fækkaði borgarbúum um 250 þúsund og eru þeir nú helmingi færri en þeir voru fyrir fimmtíu árum. Fjöldi fyrirtækja og stór hluti millistéttarinnar er flúinn og hafa skatttekjur borgarinnar því dregist verulega saman. Þegar borgin var úrskurðuð gjaldþrota á síðasta ári námu langtímaskuldir hennar 18 milljörðum dala.