Deutsche Bank afskrifaði um 257 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 42 milljarða króna, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs í tengslum við söluna á Actavis til samheitalyfjafyrirtækisins Watson Pharmaceuticals. Salan mun þó hafa jákvæð áhrif á eiginfjárhlutfall bankans, þar sem brotthvarf Actavis úr bókum Deutsche Bank dregur úr vægi áhættusamra eigna bankans.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg um afkomu bankans í dag. Hagnaður þýska bankans dróst saman á fyrsta ársfjórðungi 2012 samanborið við sama tímabil í fyrra. Afkoman skýrist meðal annars af sölunni á Actavis, sem tilkynnt var um í gær og Viðskiptablaðið greindi frá.