Stjórn Kauphallar Íslands hefur samþykkt aðild Deutsche Bank AG London að Kauphöllinni. Þá eru aðilar að Kauphöllinni 20, þar af tveir erlendir. Umsókn Deutsche Bank kom í kjölfar þátttöku bankans í útgáfu nýrra íbúðalána sem Íbúðalánasjóður mun gefa út frá 1. júlí nk. í stað hús- og húsnæðisbréfa.

Deutsche Bank AG er nú þegar aðili að hinum NOREX-kauphöllunum, þ.e. að kauphöllunum í Helsinki, Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi. Viðskipti bankans og samskipti vegna aðildar munu fara í gegnum útibú bankans í London enda hefur bankinn aðgang að SAXESS-viðskiptakerfinu þar.

?Þetta er mikilsverður áfangi fyrir íslenska markaðinn", segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar. ,,Með aðild Deutsche Bank hefur skapast greiðari aðgangur að íslenska markaðnum og við væntum þess að þetta leiði til enn frekari viðskipta erlendra aðila með íslensk bréf og efli þannig seljanleika á markaðnum. Við bjóðum bankann velkominn til Kauphallarinnar.?

Deutsche Bank er stór banki á alþjóðlegan mælikvarða með eignir að verðmæti um 878 milljarða evra og um 66,900 starfsmenn. Bankinn býður víðtæka fjármálaþjónustu í 74 löndum. Deutsche Bank stefnir að því að vera leiðandi alþjóðlegur banki sem veitir afburða fjármálaþjónustu í þágu viðskiptavina sinna og hluthafa. Deutsche Bank er í fremstu röð í heiminum á sviði fyrirtækjaþjónustu, verðbréfaviðskipta, eignastýringar og einstaklingsþjónustu og gegnir mikilvægu hlutverki sem einstaklings- og fyrirtækjabanki í Þýskalandi og öðrum löndum í Evrópu.