Hlutabréf í Deutsche Bank AG náðu sögulegu lágmarki ásamt því að skuldabréf bankans lækkuðu í virði, í kjölfar frétta um að þýska ríkið muni ekki styðja við bakið á bankanum, sem ýtt hefur undir áhyggjur fjárfesta af veikri stöðu bankans.

Ríkisaðstoð kemur ekki til greina

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel hefur lýst því yfir að ríkisaðstoð komi ekki til greina, fyrir komandi kosningar sem verða í landinu í september eftir ár.

Gengi bréfa bankans lækkaði um 6%, niður í 10,73 evrur á tímabili í markaðinum í Frankfurt, en verðið er nú 10,75 evrur. Á árinu hefur gengi bréfa bankans lækkað um nálega 52%.

Þúsundir starfa skorin niður

Framkvæmdastjóri bankans, John Cryan, hefur reynt að auka hagnað og fjármagn bankans, með því að skera niður þúsundir starfa, en árangur starfs hans er í hættu vegna krafna bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að bankinn greiði 14 milljarða dala í sekt í kjölfar ásakana um að bankinn hafi villt um fyrir fjárfestum um gæði undirmálslána í fasteignamarkaði Bandaríkjanna fyrir hrun.

Einnig stendur bankinn frammi fyrir málaferlum vegna sölu á góðmálmum og milljörðum dala sem fluttir hafa verið frá Rússlandi.

Í júnímánuði sagði alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að bankinn væri helsti áhrifavaldurinn að kerfisbundinni áhættu meðal lánastofnana. Jörg Eigendorf talsmaður bankans segir hins vegar að fjárhagsstaða bankans væri sterk.

Skortstaða tekin gegn bankanum

Fjárfestar hafa í auknum mæli tekið skortstöðu gegn bankanum, en allt að 3% hlutafé í bankanum er nú bundið í skortstöðum, sem er hækkun frá 22. september þegar það náði 1,7% lágmarki sínu.

„Ég trúi engan veginn yfirlýsingum um að Þýskaland muni ekki aðstoða Deutsche Bank ef bankinn væri í raunverulegum vanda- hann er of mikilvægur fyrir þýskt efnahagslíf,“ segir Andreas Utermann, yfirmaður fjárfestingarmála hjá Allianz Global Investors. „Á endanum er þetta pólitísk ákvörðun sem verður leyst á lægra verði.“