Deutsche bank gaf í dag út krónubréf fyrir um tvo milljarða króna til eins árs, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Alls hafa verið gefin út krónubréf fyrir um 34 milljarða króna í september og um 290 milljarða króna í heild sinni. Gera má ráð fyrir því að Deutsche bank sé að framlengja bréf á gjalddaga, en bankinn er með um 10,5 milljarða króna útistandandi bréf á gjalddaga í lok þessarar viku. Töluvert stór hluti krónubréfa kemur til gjalda í þessari viku, eða um 30 milljarða króna með vaxtagreiðslum.

Krónan styrktist um 0,11% í viðskiptum dagsins en það sem af er vikunni hefur hún styrkst um 1,5%. Margir markaðsaðilar höfðu áhyggjur af því að krónan myndi veikjast þegar krónubréf kæmu á gjalddaga en svo virðist sem krónan ætli að standast þá þolraun eins og er," segir greiningardeildin.