Þýski bankinn Deutsche Bank hef­ur samþykkt að greiða bandaríska dómsmálaráðuneytinu 7,2 millj­arða Banda­ríkja­dala í sátt vegna und­ir­máls­lána bankans á banda­rísk­um fast­eigna­markaði fyrir um áratug síðan. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bankanum.

Bankinn greiðir ráðuneyt­inu 3,1 millj­arð í sekt og 4,1 millj­arð í miska­bæt­ur til bandarískra neyt­enda.

Þann 16. september tilkynnti bandaríska dómsmálaráðuneytið um sekt á hendur Deutsche Bank að fjárhæð 14 milljarða dollara vegna ásakana um að hafa veitt undirmálslán á fölskum forsendum fyrir fjármálakreppuna árið 2008. Um það leyti nam sektin tæplega 75% af markaðsverðmæti bankans.

Viðskipti með undirmálslán voru stunduð af flestum fjármálastofnunum í Bandaríkjunum fram að fjármálakreppu árið 2008. Sátt Deutsche Bank við ráðuneytið þýðir því að bankinn þarf aðeins að greiða um helming af upphaflegri sekt.

Sektin hafði valdið miklum áhyggjum í hinu alþjóðlega fjármálakerfi vegna óvissu um það hvort að sektin myndi knésetja bankann. Deutsche Bank er svokallaður „kerfislega mikilvægur banki“, sem þýðir að fall hans myndi að öllum líkindum leiða til allsherjar bankakrísu á evrusvæðinu og víðar.

Hlutabréf í Deutsche Bank hafa hækkað um tæplega 1% það sem af er degi.