Einhverjar breytingar kunna að verða í þýska fjármálageiranum en fjölmiðlar á meginlandi Evrópu greina frá því í dag að þýski bankinn Deutsche Bank áætli nú að kaupa stóran, ef ekki allan hlut í öðrum þýskum banka, Deutsche Postbank.

Á fréttavef BBC er greint frá því að óformlegar viðræður eigi sér stað milli bankanna um hugsanlegan samruna bankanna eða yfirtöku Deutsche Bank á Deutsche Postbank. Stjórnarformaður Deutsche Bank staðfesti þó í samtali við fjölmiðla að viðræðurnar væru langt á veg komnar.

Þá er greint frá því að starfssemi bankanna sé í dag ólík og því henti sameining nokkuð vel til að búa til stóran fjármálarisa. Deutsche Bank er einn stærsti viðskiptabanki Þýskalands á meðan Deutsche Postbank er meðal stærstu fjárfestingalánasjóða þar í landi.

Í síðasta mánuði var tilkynnt um samruna annarra þýskra banka þegar Commerzbank keypti Allianz fyrir tæpa 10 milljarða evra. Því þykir ljóst að sameinaður Deutsche Bank og Deutsche Postbank yrði nokkuð mótvægi.

Annar möguleiki sem nefndur hefur verið til sögunnar er að Deutsche Bank kaupi tæplega 30% hlut í bankanum og í framhaldi af því kaupi minni hluti í einu og eignist þannig með tímanum ráðandi hlut í Deutsche Postbank.

Þýskir fjölmiðlar segja að frekar tíðinda megi vænta strax á morgun.