Þýski risabankinn Deutsche Bank tapaði einum milljarði evra, jafnvirði rúmra 115 milljarða íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Slakt gengi gerði hagnað bankans á þriðja ársfjórðungi að engu. Þá nam rekstrartap bankans 3,17 milljörðum evra á tímabilinu. Tapið skýrist einkum af afskriftum og niðurfærslum á virði eigna auk þess sem lögfræðikostnaður vegna mála sem viðskiptavinir hafa höfðað gegn bankanum hafa kostað hann rúman hálfan milljarð evra. Þá hefur niðurfærsla á eignum numið 1,66 milljörðum evra.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal bendir á það í umfjöllun sinni á vef sínum að tekjur Deutsche Bank námu 6,6 milljörðum evra á fjórðungnum og drógust þær saman um 16% á milli ára.

Blaðið segir stjórnendur bankans hafa unnið að því að bæta eiginfjárstöðu bankans, s.s. með sölu eigna sem ekki tengjast kjarnastarfsemi hans, og auka hlutafé hans með sölu hlutabréfa. Wall Street Journal segir sölu eigna reyndar ekki hafa gengið í samræmi við áætlanir. Stjórnendur bankans hafi stefnt að því að selja eignir fyrir 80 milljarða evra í fyrra. Fjórtán milljarða hafi vantað upp á til að ná markmiðinu.