Deutsche Bank hefur notfært sér hina óvæntu ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna síðastliðinn föstudag um að lækka vexti á skammtímalánum til fjármálastofnana - úr 6,25% í 5,75% - og slegið lán hjá bankanum, að því er fram kemur í Financial Times. Ekki er ljóst um hversu háa upphæð er að ræða en þýski bankinn ákvað þetta aðeins nokkrum klukkustundum eftir að bandaríski seðlabankinn lækkaði vextina. Ákvörðunin var tekin til að bregðast við áhyggjum af vaxandi lausafjárþurrð á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Forsvarsmenn Deutsche Bank vildu ekki tjá sig um málið en heimildarmenn blaðsins segja að bankinn hafi með þessu móti meðal annars viljað sýna stuðning sinn við ákvörðun seðlabankans.

Sögulega séð hafa bankar verið tregir til að nýta sér tímabundnar vaxtalækkanir hjá seðlabönkum á skammtímalánum til að sækja sér fjármagn sökum ótta um að litið verði á slíkt sem vitnisburð um veika stöðu þeirra á fjármagnsmörkuðum. Hins vegar sögðu forsvarsmenn Seðlabanka Bandaríkjanna á fjölmiðlafundi á föstudaginn að slíkur ótti væri með öllu óþarfur. Þeir bættu jafnframt við að ef eitthvað væri þá myndi beiðni um slíka lántöku frá seðlabankanum vera til marks um styrkleika við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja á fjármálamörkuðum.