Þýski bankinn Deutsche Bank hefur aukið við skuldabréfaútboð sitt í íslenskum krónum vegna umframeftirspurnar, segir í tilkynningu frá bankanum.

Hefur bankinn ákveðið að auka við útboðið um einn og hálfan milljarð og nemur útboðið nú fimm milljörðum.

European Investment Bank (EIB) stækkaði síðustu viku skuldabréfaútgáfu sína í íslenskum krónum úr þremur milljörðum í sex milljarða. Heildarskuldabréfaútgáfa erlendra aðila í íslenskum krónum er því komin upp í um 57 milljarða króna.

Nokkrir aðrir aðilar sem gefið hafa út skuldabréf hér á landi að undanförnu hafa stækkað sína flokka sökum umframeftirspurnar en mikill vaxtamunur milli Íslands og annarra landa er það sem gerir slík skuldabréf fýsileg í augum erlendra fjárfesta.

Búist er við að vaxtamunur aukist enn frekar en sérfræðingar telja að Seðlabanki Íslands muni hækka stýrivexti úr 9,5% í 10% á fimmtudaginn. Skuldabréfaútgáfa erlendra aðila í íslenskum krónu hefur orðið til þess að styrkja krónuna og náði hún methæðum í síðustu viku.