Deutsche Bank tapaði 2,2 milljörðum evra, andvirði um 390 milljarða króna, á síðasta fjórðungi ársins 2012. Stór hluti tapsins kemur til vegna afskrifta og færslna á varúðarreikninga vegna hugsanlegra sektargreiðslna.

Í frétt Financial Times segir að bankinn hafi bókfært eins milljarðs evra lögfræðikostnað m.a. vegna þáttar Deutsche Bank í ólöglegu samráði banka til að hafa áhrif á Libor vexti. Er gert ráð fyrir því að bankinn geri sátt við eftirlitsstofnanir á þessu ári.

Þá afskrifaði bankinn 1,9 milljarða evra í viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum, aðallega vegna dótturfyrirtækja sem hann keypti fyrir meira en áratug síðan. Þessi fyrirtæki á annað hvort að selja eða hreinlega loka. Hagnaður Deutsche Bank fyrir allt árið 2012 nam 665 milljónum evra, samanborið við 4,3 milljarða evra hagnað árið 2011.