Tap þýska bankans Deutsche Bank nam um 3,9 milljörðum evra á síðasta ári samanborið við 6,5 milljarða evra hagnað á árinu áður en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja tapið til mikilla afskrifta vegna eitraðra veða sem skollið hafa á bankanum síðasta árið.

Tapið á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam um 4,8 milljörðum evra sem er versti ársfjórðungur í sögu bankans í tæpa tvo áratugi að sögn Reuters.

Josef Ackermann, forstjóri Deutsche Bank útilokaði ekki, í samtali við fjölmiðla í morgun, að erfiðari tímar væru framundan í bankageiranum.

Bankinn hefur þó ekki þegið neina ríkisaðstoð og mun að sögn Ackermann að öllum líkindum ekki þurfa þess.