Deutsche Bank fékk að fara úr landi með um fimmtán milljarða króna í gjaldeyri í mars síðastliðnum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, sem segir frá málinu í blaði dagsins.

Féð var hluti af 35 milljarða króna greiðslu sem dótturfélag Lýsingar greiddi til bankans. Hluti greiðslunnar var fjármagnaður með sölu á gjaldeyri. Seðlabanki Íslands segir enga undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál hafa verið veitta vegna þessa.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins seldi dótturfélag Lýsingar, Pera ehf., gjaldeyri til að fjármagna greiðsluna og borgaði Deutsche Bank alla upphæðina í íslenskum krónum inn á reikning í Arion banka. Deutsche Bank fékk síðan að fara úr landi með sömu upphæð.