Deutsche Bank, stærsti lánveitandi Þýskalands, mun falla út úr Euro Stoxx 50, sem er evrópsk leiðandi vísitala fyrir sérlega stöðug fyrirtæki (e. blue-chip companies). Mun bankinn fara úr vísitölunni þann 24. september næstkomandi en Financial Times greinir frá málinu .

Árið hefur reynst bankanum afar erfitt en markaðsvirði hans hefur minnkað um 30% niður í 20 milljarða evra það sem af er þessu ári.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að bankinn heiti því að ráðast í endurskipulagningu og auka hagnað sinn á komandi misserum, burt séð frá brotthvarfi hans úr vísitölunni.

Euro Stoxx 50 vísitalan inniheldur 50 leiðandi, sérlega stöðug fyrirtæki í níu geirum, þar af sjö banka.

Talið er líklegt að Commerzbank, sem er annar stærsti lánveitandi Þýskalands, falli úr Dax vísitölunni sem er sambærileg vísitala fyrir fyrirtæki í Þýskalandi.