*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 18. mars 2019 18:17

Deutsche og Commerzbank hækka

Sameining tveggja stærstu banka Þýskalands, myndi skapa banka sem réði yfir tæplega 254 þúsund milljörðum króna.

Ritstjórn
epa

Í kjölfar þess að tveir stærstu bankar Þýskalands, Deutsche bank og Commerzbank, hafa hafið viðræður um sameiningu  hefur gengi bankanna tveggja hækkað nokkuð.

Þegar þetta er skrifað hefur gengi Deutsche Banks, sem er stærsti lánveitandi Þýskalands, hækkað um 4,0% eða upp í 8,13 evrur hver hlutur. Gengi Commerzbank hefur hækkað meira, eða um 6,24%, upp í 7,59 evrur hvern hlut.

Sameinaður banki myndi ráða yfir eignum að andvirði 1,9 billjónir evra, eða sem samsvarar 253.590 milljörðum íslenskra króna, með um 150 þúsund starfsmenn.

Þýska ríkið á 15% hlut í Commerzbank, en Deutsche bank hefur í nokkurn tíma verið í rekstrarörðugleikum. Þannig skilaði bankinn á síðasta ári í fyrsta sinn hagnaði frá árinu 2014. Þrátt fyrir það tapaði bankinn 409 milljónum evra, eða 54,6 milljörðum íslenskra króna, síðustu þrjá mánuði ársins 2018.

Standa vonir til að sameinaður banki geti betur keppt við stærstu aðilana á Wall Street í Bandaríkjunum, en aðrir efast um að enn frekari stækkun geti gert bankann hagkvæmari í rekstri að því er CNN greinir frá.